TITLE

Kontakt gefur út umfjöllun um netverslun

Updated: Jan 4

Oft verða breytingar í ytra umhverfi fyrirtækja til þess að hlaupa þarf og hugsa hratt til þess að aðlaga sig að breyttum veruleika. Gott dæmi um það er hvernig Covid-19 hefur breytt hegðu fólks varðandi verslun á netinu. Kontakt hefur unnið greingu á því hvaða áhrif heimsfaraldurinn hefur haft á netverslun á Íslandi.Netverslun fékk vítamínsprautu í kófinu


Samantekt

Netverslun tók á rás þegar COVID-19 hóf að herja á landsmenn. Netverslun hérlendis á mikið inni en Íslendingar hafa verið eftirbátar annarra Norðurlanda í netverslun um árabil. Eðlilegt er að hún þokist nær því sem tíðkast í nágrannalöndum okkar. Nú þegar neytendur hafa kynnst kostum netverslunar má reikna með að heimsfaraldurinn hafi í för með sér að verslað verði meira á netinu en áður þekktist þegar COVID-19 er á bak og burt. Samkeppnisforskot íslenskra netverslana felst í því að geta dreift vörum hraðar og ódýrara til viðskiptavina en erlendar verslanir. Auk þess er auðveldara að skila vörum og nýta ábyrgðarskilmála. Starfsumhverfi netverslunar hefur batnað til muna á undanförnum árum með bættum innviðum til að dreifa vörum með hagkvæmari hætti. Sýnileiki minni netverslana hefur aukist því nú er hægt að tengja þær við leitarvélar hjá netverslunarmiðstöðvum.


Kröftugur vöxtur

Kórónaveiran hefur gefið netverslun byr undir báða vængi. Netverslun jókst um 104 prósent á milli áranna 2019 og 2020 þegar horft er til fyrstu níu mánaða ársins. Vöxturinn á sama tímabili á milli áranna 2018 og 2019 nam 15 prósent, samkvæmt gagnabanka sem Rannsóknarsetur verslunar heldur utan um.

Til samanburðar jókst velta í netverslun í Svíþjóð á milli áranna 2018 og 2019 um 16 prósent, samkvæmt skýrslunni Nordic e-commerce fyrir árið 2019.Velta vefverslana, en hér er einungis horft til verslana og horft fram hjá öðrum rekstri á borð við pítsustaði og þjónustufyrirtæki, nam 17,1 milljarði króna á fyrstu níu mánuðum ársins, samkvæmt gögnum Rannsóknarseturs verslunar.Veltan jókst verulega í apríl þegar margir unnu heima hjá sér og fóru síður í verslanir til að draga úr líkum á COVID-19 smitum. Veltan jókst um 86 prósent á milli mars og apríl síðastliðins. Veltan náði ekki sömu hæðum frá maí til september þegar fólk hafði minni áhyggjur af smitum en var engu að síðu 104 prósent meiri en á sama tímabili fyrir ári.
Hlutfall netverslunar af allri verslun hefur aukist úr tveimur prósentum árið 2017 í að meðaltali fimm prósent í ár. Hlutfallið fór í níu prósent apríl síðastliðnum en hefur frá því haldist á bilinu fjögur til fimm prósent, samkvæmt gagnabanka Rannsóknarseturs verslunar. Til samanburðar var hlutfallið í nágrannalöndum okkar um tíu prósent af heildarveltunni árið 2018. Í þessum tölum eru til dæmis ekki kaup á pítsum og fjölmiðlum, eins og áður segir.


Netverslun á mikið inni

Netverslun á Íslandi á því mikið inni. Neytendahegðun hérlendis ætti að vera nær því sem tíðkast á öðrum Norðurlöndum. Sömuleiðis má leiða líkur að því að stór hópur sem hefur tamið sér að versla á netinu muni halda því áfram þegar COVID-19 er á bak og burt.

Færa má rök fyrir því að netverslun hafi tekið seinna við sér á Íslandi vegna þess hve afgreiðslutími verslana er rúmur og þær eru víða. Flestir eru á bílum og auðvelt er að leggja við verslanir. Það er ekki reyndin alls staðar. Það kann sömuleiðis að hafa áhrif að flestir sem reka heimili á Íslandi eru í vinnunni á daginn og eru því ekki heima til að taka við vörum fyrr en á kvöldin.

Auk þess dregur það úr erlendri netverslun hve kostnaðarsamt það getur verið að senda vörur til Íslands. Að sama skapi er ekki hlaupið að því að skila vörum frá Íslandi til erlendra verslana og það getur reynst dýrt. Enn fremur má nefna að það getur tekið tíma að fá vörur afhentar en margir kjósa að fá þær í hendur eins fljótt og auðið er.

Neytendur gera miklar kröfur um að fá vörur afhentar fljótt. 46 prósent svarenda könnunnar á vegum flutningafyrirtækisins UPS hafa hætt við kaup vegna þess hve langan tíma það tók að senda vöruna á áfangastað eða það var ekki gefið upp hve langan tíma það myndi taka.

Það skiptir jafnframt máli að auðvelt sé að skila vörum: Erlendis er um 15 prósent vara sem keyptar eru á netinu skilað, hlutfallið er nær 30 prósent þegar um fatnað er að ræða. Til samanburðar er hlutfallið fimm til tíu prósent í hefðbundnum verslunum, samkvæmt frétt Practical Ecommerce.


Samkeppnisforskot

Íslensk netverslun býr því yfir samkeppnisforskoti: Það er hægt að fá vörur afhentar fljótt, það er auðvelt að skila þeim og auðveldara að beita fyrir sig ábyrgðarskilmálum á innlenda netverslun en erlenda.

Það skiptir þó máli að skilja hvers vegna neytendur versla við erlendar netverslanir: Þegar neytendur á hinum Norðurlöndunum kjósa að versla í alþjóðlegum vefverslunum er það einkum vegna lægra vöruverðs en heimafyrir. Þeir horfa einnig til þess þegar varan er ekki til á heimamarkaði eða eru á höttunum á eftir einstakri vöru, samkvæmt skýrslunni Nordic E-commerce fyrir árið 2019.

Að þessu öllu sögðu er aukin þjónusta fólgin í því að fá vörur afhentar heim að dyrum hratt og örugglega. Í COVID-19 eru margar fjölskyldur að kynnast hagræðinu sem fylgir því. Líklega mun það hafa þau áhrif á meðal hóps neytenda að þeir kunni meira að meta þægindin sem í því felst að fá vörur sendar heim og muni fyrir vikið ekki einblína jafn mikið á að gera kostakaup á netinu. Það er eðlilegt að meta heimsendingar til fjár.


Innviðir netverslunar batnað

Umhverfið til að reka minni netverslanir hefur batnað til muna á undanförnum árum. Aukin samkeppni um að dreifa vörum frá netverslunum hefur lækkað verð og bætt þjónustu við viðskiptavini; svo sem með aukinni tíðni og með því að bjóða viðskiptavinum að sækja vörur í vel staðsett box eða verslanir með rúman opnunartíma þegar þeim hentar. Það dregur úr þörf fyrirtækja á að fjárfesta í eigin dreifikerfi og bætir því samkeppnisstöðu minni netverslana til muna.

Að sama skapi hafa sprottið upp verslunarmiðstöðvar á netinu. Um er að ræða vefi þar sem hægt er að leita að vörum frá fjölda verslana á einum stað. Það eykur sýnileika netverslana, eflaust njóta minna þekktar verslanir meira góðs af því en þær sem njóta meiri vinsælda.

Það breyttir því ekki að stærðarhagkvæmni er í rekstri netverslana og því getur verið til mikils að vinna að leita leiða til að auka umfang rekstarins, hvort heldur sem er með breiðara vöruúrvali í versluninni eða reka fleiri sérhæfðar netverslanir. Með því má lækka einingakostnað.


Jólaverslunin færist á netið

Heimsfaraldurinn gerir það að verkum að jólaverslun mun færast í auknum mæli á netið í ár. Skoðanakönnun Zenter rannsókna leiddi í ljós að 58 prósent Íslendinga þykir líklegt að þeir muni kaupa jólagjafir á netinu í ár. Til samanburðar var hlutfallið 22 prósent árið 2017 og 15 prósent árið 2015.

Sama könnun, sem gerð var í nóvember, vakti athygli á að konur eru mun líklegri til að versla jólagjafir á netinu en karlar. Hlutfallið er 71 prósent hjá konum en 45 prósent hjá körlum. Það varpar ljósi á hve mikilvægur kaupendahópur konur eru.

Fólk á aldrinum 25-44 ára er langsamlega áhugasamast um að versla á netinu fyrir jólin. Hlutfallið er 75-77 prósent. Meirihluti þeirra sem eru á aldrinum 45-54 hafa hug á að kaupa á netinu eða 62 prósent. Hins vegar fer hlutfallið í 39 prósent í aldurshópnum 55-65 og í 28 prósent hjá 65 ára og eldri.Matvaran trónir á toppnumKöfum betur ofan í íslenska netverslun. Á sex mánaða tímabili, frá apríl til og með september, var mesta veltan hjá netverslunum stórmarkaða og dagvöruverslun, samkvæmt gögnum Rannsóknarseturs verslunar. Hlutdeildin er 23 prósent. Til samanburðar er hlutfallið 44 þegar litið er til hefðbundinnar og netverslunar.

Hlutfall raf- og heimilistækjaverslana er 17 prósent, verslana með heimilisbúnað með 13 prósent og fataverslunar ellefu prósent.


Kórónuveiran breytti neyslumynstrinu

Margir kjósa að versla í matinn á netinu eftir að COVID-19 kom til sögunnar. Mest var veltan í apríl eða 652 milljónir króna en fimm mánuðina á eftir var meðaltalið um 480 milljónir króna. Rannsóknarsetur verslunar hóf ekki að halda utan um veltu stórmarkaða og dagvöruverslana á netinu fyrr en í mars síðastliðnum, samkvæmt gagnabankanum.Rekstur matvöruverslana á netinu er erfiður. Í stað þess að viðskiptavinir gangi um verslunina og setji vörur í körfu þurfa starfsmenn að sinna því hlutverki fyrir hvern og einn. Að sama skapi er vaninn að viðskiptavinir komi vörunum til síns heima en það er ekki reyndin í netverslun. Netverslanir sinna því tveimur kostnaðarsömum þáttum sem hefðbundnar verslanir annast ekki. Engu að síður kalla neytendur eftir því að greiða samskonar verð fyrir aukna þjónustu. (Heimssending er alla jafna frí ef verslað er fyrir meira en 15 þúsund krónur. Það að taka á sig sendingarkostnað er kostnaðarsamt.) Erfitt hefur reynst erlendis að vélvæða það að raða í innkaupakörfur vegna þess hve ólík að lögun matvara getur verið. Á móti kemur að netverslanir þurfa ekki að halda úti vel staðsettum og fallegum verslunum.


Héldu sig lengi til hlés

Risarnir á matvörumarkaði, Festi og Hagar, héldu sig lengi vel til hlés á netinu. Krónan, sem er í eigu Festis, og Hagkaup, sem tilheyrir samstæðu Haga, opnuðu ekki vefverslanir fyrr en í COVID-19.

Boxið, sem var fyrsta matvöruverslunin sem eingöngu var á netinu, opnaði síðla árs 2016. Hún lokaði í lok árs 2019. Um var að ræða litla rekstrareiningu sem ekki naut stærðarhagkvæmni í innkaupum og átti því í erfiðleikum með að keppa við stærri matvörukeðjur í verðum.

Aðrar matvöruverslanir á netinu eru Nettó, Heimkaup – sem selur allt milli himins og jarðar – og Kostur sem selur vörur frá Costco.